,,Ég er mjög ánægður með þetta nýja troll. Það er hverfandi ánetjun í 8 byrða belgnum og fiskur, sem kemur inn á fisksjána í brúnni, fer allur aftur í pokann. Það er ekki annað hægt en vera mjög ánægður með lagið á belgnum. Hann virðist vera betur opinn en fyrri belgir og víddin á honum er mjög góð alveg aftur í poka.”
Það er Tómas Kárason sem ásamt Sturlu Þórðarsyni er annar skipstjóra á Beiti NK, sem þannig lýsir nýju 2432 metra Gloríu Helix kolmunnatrolli frá Hampiðjunni, en trollið hefur reynst Tómasi, Sturlu og öðrum skipverjum á Beiti einstaklega vel á vertíðinni í vetur og vor.
Tómas er mjög ánægður með nýju hönnunina á veiðarfærinu og segir að þeir hafi verið að fá allt að 50% meiri afla í þetta nýja troll miðað við sambærileg troll sem við höfum notað áður. Aflinn í síðustu sex veiðiferðum á kolmunnamiðin er um 16.000 tonn. Það samsvarar fullfermi í hverjum einasta túr því Tómas segir rýmið í tönkum vera gefið upp fyrir 3.200 tonn af fiski.
,,Við fengum trollið um sl. áramót og fórum í eina veiðiferð á kolmunna áður en skipt var yfir á loðnu. Við byrjuðum svo aftur á kolmunnaveiðum en þær veiðar eru búnar í bili. Næstur á dagskrá er svo makríll og við stefnum að byrja á þeim veiðiskap um 20. júní. Það eru einhverjir byrjaðir að leita að makríl djúpt suður af landinu en þeir hafa enn ekkert fundið.”
Svo vikið sé aftur að nýja trollinu þá opnast það 120 metra á hæðina og 240 metra á breiddina. 360 til 390 metrar eru á milli hlera í sjónum, eftir hæðarstöðu veiðarfærisins á toginu.
Lóðin eru 2,5 til 3 tonn og eru þau hvoru megin á neðri vængendum. Áhöfnin á Beiti notar Admiral flottrollshlera sem eru 14,5 m2 að stærð og 4200 kg að þyngd, hvor hleri.
Grandarar eru 180 metra langir, úr 31 mm yfirfléttuðum DynIce Dux köðlum.
,,Framan af vorum við að fá meiri afla með þessu nýja trolli miðað við sambærileg troll í veiðinni. Síðan hefur hlutfallið lækkað og það stafar m.a. af því að fleiri skip eru komin með sams konar troll. Það virðist ekki skipta máli á hvaða dýpi er togað. Í janúar vorum við mikið að toga á 300-500 metra dýpi en að undanförnu höfum við farið alveg upp á 120 metra,” segir Tómas en hann kveður reynsluna af kolmunnapokunum sömuleiðis vera mjög góða.
,,Við höfum mest notað léttari pokann og hann er virkilega góður. Sá poki er gefinn upp fyrir 600-700 tonna afla. Ef mikið liggur við og við eigum von á meiri átökum þá getum við skipt yfir í þyngri pokann. Sá er hannaður fyrir meiri átök eins og eru t.d. við Rockall og út af Írlandi. Þyngri pokinn er gefinn upp fyrir 900-1.100 tonna afla í holi og hann hentar oft betur fyrir styttri og snarpari hol,” segir Tómas Kárason en hann segist vonast til að geta prófað kolmunnatrollið á makrílveiðunum í sumar, vegna þess hve vel þeim gekk með veiðarfærið uppi á 120 metra dýpi nú fyrir stuttu.