Hafró komið í Hafnarfjörð, myndasyrpa
Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, vígði 5.júní síðastliðinn nýjar höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði. 

Forsetinn tók sér far með skipalest sem fór í sérstaka vígslusiglingu af þessu tilefni frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. 

Starfsfólk Hafró, eins og stofnunin er jafnan í daglegu tali kölluð, fylkti liði og gekk í skrúðgöngu frá gömlu höfuðstöðvunum við Skúlagötu 

og um borð í tvö hafrannsóknaskip stofnunarinnar við Reykjavíkurhöfn. 

Þaðan var siglt yfir í nýja heimahöfn og tók siglingin um tvær og hálfa klukkustund.

Þrír bátar björgunarsveitar Hafnarfjarðar fylgdu rannsóknaskipunum, þeim Árna Friðrikssyni HF og Bjarna Sæmundssyni HF á siglingunni. 

Um borð voru auk starfsfólks Hafró, forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, sjávarútvegsráðherrann Kristján Þór Júlíusson, 

Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri atvinnuvegaráðuneytisins, og Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar.


Guðni skoðaði skipið og ræddi við áhöfnina á siglingunni


Tilgangurinn með vígslusiglingunni var meðal annars að hnykkja á mikilvægi rannsóknarskipanna

 en útgerð þeirra er einn af meginþáttunum í starfi Hafrannsóknastofnunar. 

Guðni fékk á leiðinni kynningu á tækjum og tólum um borð og ræddi við áhafnarmeðlimi. 

Þá nýtti forsetinn tækifærið, um miðja vegu siglingarinnar, til að virða fyrir sér bústað sinn á Bessastöðum á Álftanesi utan af sjó. 

Bað hann Kristján H. Kristinsson, yfirstýrimann á Árna Friðrikssyni HF, um að lána sér kíki til verksins, sem var auðsótt mál.

Forsetinn klippti á fánaborða á landganginum við Háabakka


Eftir að skipin lögðust að nýjum hafnarbakka stofnunarinnar, Háabakka í Hafnarfjarðarhöfn,

 klippti forsetinn á fánaborða sem strengdur var fyrir landganginn og gekk svo ásamt starfsfólki Hafró að nýju höfuðstöðvunum. 

Forsetinn, sjávarútvegsráðherra, bæjarstjóri Hafnarfjarðar og forstjóri Hafrannsóknarstofnunar fluttu því næst stutt ávörp og þess á milli 

spilaði Lúðrasveit Hafnarfjarðar og einnig söng karlakórinn Þrestir nokkur lög. 

Fjöldi gesta hlýddi á en á meðal þeirra voru Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra 

og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

Einnig mátti sjá marga þingmenn, bæjarfulltrúa, fyrrum stjórnmálamenn og forystufólk úr sjávarútvegi og atvinnulífinu.

Eftir að Jón Rúnar Halldórsson, framkvæmdastjóri Fornubúða, fasteignafélagsins sem stóð að byggingu höfuðstöðvanna, 

hafði afhent Sigurði H. Guðjónssyni forstjóra Hafró lyklana að nýju höfuðstöðvunum, 

bauðst gestum að skoða húsnæðið og njóta veitinga undir spili lúðrasveitarinnar.

Höfðu verið í Sjávarútvegshúsinu sl. 55 ár


Eftir flutningana er starfsemi Hafrannsóknastofnunar á höfuðborgarsvæðinu loks komin á einn stað

 en áður voru höfuðstöðvar stofnunarinnar í Sjávarútvegshúsinu að Skúlagötu 4 

og geymslur og skemmur við Grandagarð.

 Þess má geta að Hafrannsóknarstofnun hefur haft sitt aðsetur í Sjávarútvegshúsinu allt frá stofnun árið 1965.

Stærsta timburhús landsins


Stefna Hafró er að vera eins umhverfisvæn stofnun og mögulegt er og því var ákveðið að byggja nýja húsið úr timbri.

 Notast var við svokallaðar krosslímdar tréeiningar sem voru fluttar inn frá Austurríki. 

Húsið er 4.100 fermetrar að stærð og fimm hæða og þar með stærsta timburhús landsins.

Mötuneyti og fundarsalir eru á jarðhæðinni og rannsóknarstofur á þeirri annarri.

 Þrjár efstu hæðirnar fara að mestu undir skrifstofur en Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna hefur einnig aðstöðu í húsinu. 

Þá verður geymsla, verkstæði og útgerðaraðstaða í um 1.440 m² eldri byggingu.


Hérna að neðan má sjá myndir sem voru teknar af þessu tilefni
Bjarni Sæmundsson HF og Árni Friðriksson HF í innsiglingunni til HafnarfjarðarGlittir í snæfellsjökul bakvið Árna Friðriksson HF í innsiglingunni til Hafnarjfarðar


Sjávarútvegsráðherra, Ráðuneyttisstjóri sjávarútvegsráðuneytins og forstjóri Hafró ganga í fylkgingarbrjósti starfsfólks


Gengið var fylktu liði frá gamla sjávarútvegshúsinu við Skúlagötu


Björgunarbátar björgunarsveitar Hafnarfjarðar fylgdu skipunum á leiðinni og skemmtu farþegunum með alls kyns uppátækjum á hinum hraðskreiðu farartækjum


Gengið um borð í Reykjavíkurhöfn


Gestir hlýddu á söng karlakórsins Þrestis á bryggjunni í Hafnarfirði


Guðni fagnaði góðu veðri og giftusamlegri siglingu


Guðni í stafni Árna Friðrikssonar 


Guðni með Kristján Þór júlussyni og Sigurði Guðjónssyni forstjóra Hafró


Stefnt á Hafnarfjörð


Guðni ræðir við Bjarna Sveinsson háseta á stíminu á Faxaflóa


Guðni heilsar Jón Rúnari Halldórssyni


Jón rúnar Halldórsson framkvæmdastjóri byggingarfélagsins Fornubúða afhenti Sigurði Guðjónssyni forstjóra Hafró lyklana formlega að viðstöddum forsteta íslands


Kristján Þór Júlíuss flutti ávarp


Lúðrasveit Hafnarfjarðar hélt uppi stemmingunni


Mikil hátíð var við nýju  höfuðstöðvarnar sem eru nú stærsta timburbygging landsins


Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar bauð hafró velkomið til Hafnarfjarðar


Sigurður Guðjónsson flutti ávarp þar sem hann sagði frá aðdraganda flutninganna og verkefnum sem verður sinnt á nýjum stað

Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafró og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður


Sigurður ingi Jóhannesson samgöngu og sveitarstjórnaráðherra, Árni Sigurjónsson formaður samtaka iðnaðarins og Eyjólfur Árni Rafnsson formaður samtaka Atvinnulífsins


Hallur Helgason,  Jón Rúnar Halldórsson og Guðlaugur Þór Þórðarson


Kristján Loftsson, Jón Rúnar Halldórsson, Bjarni Benediktsson og Kristján Arason


Bjarni Sæmundsson leggur að Háabakka


Það var fallegur dagur og hátíðarstemming þegar skip Hafró komu í nýja heimahöfn við glæsilegar höfuðstöðvar stofnunarinnar við Fornubúður í Hafnarfirði


Skipin voru klædd í hátíðarbúning


Texti og myndir frá goðsamskipti.is