Mokveiði hjá Skáley SK yfir 300 kíló á bala!,2017
Nýjsti listinn af bátum að 8 BT kom á síðuna núna áðan og þar kom í ljós að tveir bátar frá Hofsósi voru að mokfiska þar. Ásmundur SK sem var með 9,2 tonn í tveimur róðrum og þar af 5,1 tonn í róðri og Skáley SK.
Skáley SK sem er ekki nema 7 tonna bátur landaði alls 15 tonnum í aðeins þremur róðrum eða 5 tonn í róðri.
6 Tonna túrinn
Einn róðurinn hjá Skáley SK var risastór því að hann var tæp 6 tonn eða 5981 kíló. Aflafrettir vildu fá að vita nánar um þetta og slógu á þráinn til Hössa. Hjálmar Höskuldur Hjálmarsson eða Hössi eins og hann er kallaður er skipstjórinn á Skáley SK og sagði hann í samtali við Aflafrettir að þennan afla hafi þeir fengið í Skagafirðinum eða í eins klukkustundar stími frá Hofsósi.
Mjög góði veiði hefur verið í Skagafirðinum sérstaklega eftir að fjörðurinn var lokaður fyrir dragnótaveiðum sem að Jón Bjarnarson sjávarútvegsráðherra setti á árið 2011.
Að sögn Hössa þá voru þeir með aðeins 18 bala þegar þeir fengu 6 tonna túrinn. það gerir 332 kíló á bala.
túrinn þar á eftir var tæp 5 tonn á 20 bala eða 249 kíló á bala og þar á undan var hann með 4 tonn á 15 bala eða 267 kíló á bala.
frá áramótum þá hefur Skáley SK landað 30 tonnum sem hafa fengist á 98 bala eða 308 kíló á bala. sem er feikilega gott
Góður fiskur
Hössi talaði um að fiskurinn í firðinum væri mjög góður og hafi þorskurinn verið allt upp í 8 kíló að stærð. verðin sem Skáley SK hefur verið að fá eru í kringum 300 krónur að meðalverði núna í janúar og er því aflaverðmætið hjá Skáley SK í kringum 9 milljónir króna.
Með Hössa þá er Stefán Grímur að róa.
Hössi sagði að báturinn hefði borið þessi 6 tonn mjög vel og var hann ekki aftursigin því að undir brúnni eru 2 kör og er fiskur settur í körin í gegnum stigann sem liggur uppí stýrishúsið.
Nokkuð merkilegt er að allur þessi 6 tonna afli var í körum um borð enn Hössi sagði að Skáley SK tæki 15 kör sem eru í 330 lítra og 660 lítra stærðum.
Því miður var ekki til mynd af bátnum með aflann enn Hössi sagðist ætla að redda því næst þegar hann kemur með svona stóran túr. Myndin hérna að neðan er að bátnum á grásleppu.
Skáley SK mynd Þiðrik Unason