Mokveiðin hjá Ljósafellinu SU. Ólafur Helgi Skipstjóri,2018

Fyrir nokkrum dögum síðan þá var birt frétt hérna á Aflafrettir um mokveiða hjá Ljósafellinu SU sem er búinn að vera að gera það ansi gott núna í júlí,


Ljósafell SU er í eigu Loðnuvinnslinar á Fáskrúðsfirði og þeir búa til fréttir um sín skip og gerðu litla frétt sem byggðist á fréttinni um mokveiðina sem var skrifuð hérna á Aflafrettir.  


Hérna kemur fréttin frá LVF og þar er viðtal við Ólaf Helga Gunnarson skipstjóra á Ljósafellinu SU.


Ljósafell SU 70 hefur verið aflasækið það sem af er júlímánuði.  Á lista sem birtur var á vegum Aflafrétta kemur fram að Ljósafellið er í öðru sæti yfir aflahæstu togarana með 562 tonn.  Túrarnir hafa verið stuttir, tveir til þrír dagar, og aflinn verið á bilinu 74 til 124 tonn.  Ólafur Helgi Gunnarsson skipstjóri á Ljósafellinu svaraði því til, þegar hann var spurður út í hið góða gengi Ljósafells, að nægur fiskur væri á miðunum sem Ljósafellið hefði verið á. „Við höfum haldið okkur á Papagrunni, þar er sumargotssíld og fiskurinn sækir í æti tengt henni og við höfum nánast setið einir að borðinu“, sagði Ólafur.  Síðan bætti skipstjórinn því við að veðrið væri búið að vera með afbrigðum gott, „rjómablíða, það bærist ekki hár á hárlausu höfði“ sagði hann kátur.
Aðspurður að því hvort að áhöfnin kættist ekki yfir hinu góða gengi sagði hann svo vera en bætti því jafnan við að álagið væri mikið þegar svona mikið fiskast. „Fiskurinn fer ekki sjálfur ofan í lest, þetta eru mörg  handtök“ sagði Ólafur.  Hann lagði ennfremur áherslu á það að áhöfnin væri góð því svona árangur hæfist ekki öðruvísi.
BÓA

eins og fram kemur hérna í viðtalinu þá sitja þeir svo til einir núna af þessum miðum þarna fyrir austan og er þetta mikil breyting frá því sem var þegar að á austfjörðum voru um um 12 til 14 togarar á svæðinu frá Vopnafirði og að Hornafirði


Ljósafell SU Mynd Guðmundur St Valdimarsson