Nýsmíði til Þorbjarnar í Grindavík. togari númer 6.
Þorbjörn hf. í Grindavík hefur gert samning við Skipasmíðastöðina Armon í Gijón á Spáni um smíði á 58 metra löngum og 13,6 metra breiðum ísfisktogara.
Ráðgert er að smíðinni ljúki á fyrri hluta ársins 2024.
Þetta er fyrsta nýsmíðin sem Þorbjörn hf. ræðst í síðan 1967, en á undanförnum 50 árum hafa fjölmörg fiskiskip komið við sögu félagsins ýmist við sameiningar við
önnur útgerðarfyrirtæki eða við bein kaup. Fyrirtækið hefur staðið fyrir meiriháttar endurnýjun og breytingum á eldri skipum og breytt þeim úr t.d. uppsjávarveiðiskipum yfir í
línuskip og ísfisktogurum yfir í frystiskip.
Undanfarin ár hefur Þorbjörn hf. tekið úr rekstri þrjú línuskip og tvo frystitogara en í staðinn hefur fyrirtækið keypt frystitogara
frá Grænlandi og ísfisktogara frá Vestmannaeyjum. Nú heldur Þorbjörn hf. áfram endurnýjun skipaflota fyrirtækisins og væntanlega verða enn
nokkrar breytingar á núverandi útgerð þó að það hafi ekki enn verið ákveðið.
Skipið er hannað af Sævari Birgissyni skipatæknifræðingi hjá Verkfræðistofunni Skipasýn ehf. í nánu samstarfi við starfsmenn
Þorbjarnar hf. og liðsinnti hann starfsmönnum Þorbjarnar hf. við samningsgerðina á Spáni.
Við hönnun skipsins hefur verið lögð rík áhersla á að draga úr orkunotkun og þar með að umhverfisáhrif þess verði sem minnst.
Aðalvél skipsins sem verður um 2400 KW. mun knýja skrúfu sem verður 5 metrar í þvermál.
Stærð og snúningshraði skrúfunnar verður lægri en áður hefur þekkst í eldri fiskiskipum af sambærilegri stærð.
Skipið verður þess vegna sérlega sparneytið og því í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki. Þá verður skipið búið til veiða með tveimur botnvörpum samtímis og togvindurnar knúnar rafmagni.
Í hönnun skipsins er sérstaklega litið til sjóhæfni þess með tilliti til öryggis og bættrar vinnuaðstöðu.
Áhersla er lögð á að aðbúnaður áhafnar verði sem bestur og allir skipverjar hafa sínar eigin vistarverur og hreinlætisaðstöðu.
Gert er ráð fyrir því við hönnun skipsins að auðvelt verði að breyta því í frystitogara ef það hentaði á einhverjum tíma skipsins.
Mesta breytingin frá eldri skipum Þorbjarnar hf. varðandi vinnslu og meðferð aflans er sú að sjálfvirk flokkun á aflanum fer
fram á vinnsludekki skipsins og frágangur aflans í fiskikör fer fram á einum stað á vinnsludekkinu.
Þaðan fer aflinn í lyftum niður í lest og verður lestarvinnunni eingöngu sinnt af fjarstýrðum lyftara sem rennur á loftbita í lest skipsins.
Auk þess að annast flutning og stöflun á fiskikörum verður lyftarinn notaður við losun skipsins þegar það kemur til hafnar.
Aflafrettir óska Þorbirni innilega til hamingju með þessa nýsmíði