Nýtt Hoffell SU komið til Fáskrúðsfjarðar.
Það var greint frá því hérna á Aflafrettir.is að Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði hefði keypt nýtt
Fáskrúðsfjörður skartaði sínu fegursta í dag þegar nýtt uppsjávarskip Loðnuvinnslunnar sigldi fyrsta sinni til nýrrar heimahafnar. Skipið hefur fengið nafnið Hoffell og leysir af hólmi eldra skip Loðnuvinnslunnar sem bar sama nafn.
Margir stóðu á bryggjunni og fögnuðu komu skipsins, séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir blessaði skip og áhöfn, Fanney Linda Kristinsdóttir, starfsmaður Loðnuvinnslunnar, gaf skipinu nafnið Hoffell og síðan fluttu ávörp þau Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir mannauðs- og öryggisstjóri LVF og Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri. Þá var öllum viðstöddum boðið að ganga um borð, skoða skipið og þiggja veitingar.
Nýja Hoffellið er fagur grænt líkt og hið eldra, stærra, sterkara og betra að öllu leiti, enda var það markmiðið með skipaskiptunum, að betrumbæta og endurnýja.
Skipið er smíðað í Danmörk árið 2008 og er 2.530 rúmmetrar og ber u.þ.b. 2500 tonn af afla sem er all nokkuð stærra en fyrra skip.
Kjartan Reynisson er útgerðarstjóri LVF og var að vonum sporléttur og brosmildur í tilefni dagsins. Hann sagði nýja skipið væri umtalsvert lengra og breiðara og burðargeta þess væri um 53% meiri heldur en fyrra Hoffell. „Stóra málið fyrir okkur er að sækja meiri afla í færri ferðum og gildir það jafnt hvort heldur við erum að veiða kolmunna eða makríl og þó sér í lagi á loðnuveiðum þar sem hrogna tíminn er takmarkaður“ sagði Kjartan. Þá nefndi hann það líka að olíueyðsla á veitt tonn yrði minni á þessu nýja skipi.
Sigurður Bjarnason er skipstjóri á Hoffelli og kom siglandi á því frá Florö í Noregi, þar sem það var tekið í slipp og málað, til Íslands og sagði hann skipið láta afar vel í sjó. „Ég er mjög ánægður með skipið, það er ekki hægt annað“ sagði skipstjórinn og lét þess getið að það hefði verið bræla nánast alla leið milli Noregs og Íslands og skipið hefði látið vel í sjó og farið mjög vel með mannskapinn. Hann sagði líka að skipið væri vel tækum búið og nú væri bara að klára formsatriði varðandi skráningu skipsins á Íslandi og skoðun á búnaði og að því loknu yrði siglt beint á makrílveiðar. „Ég hef góða tilfinningu gangvart þessu skipi, og er með góða áhöfn, ég geri ekkert einn“ sagði Sigurður skipstjóri og gekk um boð síðastur manna.
Smári Einarsson er skipverji á Hoffelli og greinarhöfundur greip hann á bryggjunni og spurði hvernig honum litist á að vinna á nýju skipi. „Mér líst mjög vel á það“ sagði Smári, „þetta er gott skip, betri vinnuaðstaða að öllu leiti og það var mjög gott í brælunni á leiðinni heim“ sagði hann og bætti svo við „þetta skip var í brælu eins og hitt í blíðu“.
Högni Páll Harðarson er yfirvélstjóri og hans ríki er mest í iðrum skipsins. Þar er Mak aðalvél sem er 8100 hestöfl auk tveggja ljósavéla sem eru um 1200 hestöfl hvor og svo sú þriðja sem er nokkuð minni. Högni sagði að starf vélstjóra væri í raun hið sama þó svo að skipið væri stærra, þó sannarlega væri verið að vinna með nýrri búnað og tæki. „Starfið felst að stóru leiti í vöktun á búnaði, sinna viðvörunum ef þær gera vart við sig alls konar græjum er snýr beint að aflanum eins og að undirbúa lestar, kæla sjó og kæla aflann“. Þá sagði Högni að skipið væri töluvert öflugra en hið eldra og stöðugra. „Það getur reynst erfitt að sinna viðhaldi ef maður þarf að nota aðra höndina til þess að halda sér því skipið veltur svo mikið“ sagði yfirvélstjórinn og bætti svo við kankvís „stundum skiptir stærðin máli“.
Hoffell SU mynd Valgeir Már Friðriksson
Hoffell SU mynd Valgeir Már Friðriksson